Fróðleikur um efni

GULL

Gull er frumefni með efnatáknið Au (latína: aurum) og er númer 79 í lotukerfinu. Þetta er mjúkur, gljáandi, gulur, þungur, hamranlegur og linur málmur sem er ónæmur gegn flestum efnum en hægt er að vinna á honum með klór, flúor og kóngavanti. Gull finnst sem molar eða sem gullkorn í grjóti.

Hreint gull hefur eðlisþyngdina 19,3 en bræðslumark þess er 1063° C.  Það er mjög mjúkt og hefur mikla þenslu.  Til að smíða úr gulli er það blandað með kopar og silfri

916/1000 22kt

750/1000 18kt

585/1000 14kt

375/1000   9kt

Vissir þú að hægt er að draga 1 gr af gulli í 2.5 km langan vír sem þá er orðinn 5 míkron eða fimm milljónustu úr metra á þykkt.  Eins má þynna gull niður í 0.18 míkron, 3.4 gr af 23k blaðgulli af þessari þykkt þekur flöt sem er 1 fermeter.

PLATÍNA

Platína er frummálmur.  Platína finnst aldrei hrein, hún er alltaf í sambandi við fimm aðra málma, einn eða fleiri í senn.  Þeir eru Palladíum, iridium, osmium, ruthemíum og rhodium.

Eðlisþyngd platínu er 21,5 og bræðslumark er 1774°C.

 

HVÍTAGULL

Hvítagull verður til við sambræðslu gulls og palladium.

 

SILFUR

Silfur er frumefni með efnatáknið Ag (skammstöfun á latneska orðinu yfir silfur, argentum) og er númer 47 í lotukerfinu.  Silfur er mjúkur, sveigjanlegur hvítgljáandi málmur sem hefur hæstu raf- og hitaleiðni allra málma og finnst í steindum og einnig í hreinu formi.

Enginn málmur er eins hvítur á lit og silfur.  Þensla silfurs kemst næst þensu gulls, eðlisþyngd þess er 10,5 og bræðslumark 960° C.

830/1000 Þriggja turna

925/1000 Sterlingssilfur.

Silfur hefur mannkynið nýtt í 6000 ár. Rómarríki þurfti 10.000 tonn af silfri í gjaldmiðil sinn á öðru árhundraðinu fyrir Krist. Stöðugleiki gjaldmiðilsins byggðist á nægu framboði á silfri. Um 1300 var sterling silfur gert að gjaldmiðli á Englandi. Orðið sterling er komið frá Þýskalandi og dregið af nafni héraðsins Easterling.

 

HIRÐING OG VIÐHALD GULL OG SILFURMUNA

Skartgripi og aðra skrautmuni úr gulli og silfri þarf að hugsa vel um ef þeir eiga að njóta sín.  Ef þeir eru þvegnir reglulega upp úr volgu sápuvatni og fægðir með mjúkum klút má koma í veg fyrir að þeir dökkni.  Nú orðir fast líka ýmsar gerðir hreinsivökva en gæta verður að því að sumir skartgripir þola þá ekki.  Náist blettir eða húð á skartgrip ekki af með venjulegum aðferðum er ráðlegast að fara með hlutinn til gullsmiðs.  Gott er að fara með verðmæta skartgripi árlega til gullsmiðs til eftirlits, það eykur endingu þeirra.

 

EÐALSTEINAR

Glimrandi fagrir eðalsteinar sem grafnir eru djúpt úr iðrum jarðar hafa um þúsundir ára haft mikil áhrif á ímyndunarafl manna.  Þeim hefur fylgt margskonar trú á töframátt og yfirnáttúrlega krafta og fylgir enn.

Demanturinn er æðstur eðalsteina en hann er harðasta náttúruefni sem til er með hörkustigið 10.  Demantur er verðlagður eftir gæðum og þar gilda fjögur lykilatriði: Þyngd, litur, hreinleiki og slípun.

Fjölmargar tegundir eðalsteina eru til og meðal þeirra þekktustu eru: Safír, rúbín, smaragður, ópall, jaspis, kvarts og bergkristall.  Þyngd eðalsteina er mæld í katötum, í einu karati eru 100 punktar.  Eitt karat er 0,2 gr.

Demantar

Frægust demantar sögunnar eru Koh-I-Noor sem er varðveittur í Tower of London og er hluti af krúnudjásnum Elísabetar Englandsdrottningar. Hope demanturinn hefur á sér bölvun, var m.a. í eigu Marie Antoinette. Sagt er að hún hafi borið hann þegar hún var hálshoggin í frönsku byltingunni. Cullinan steinninn var upphaflega 3.106 karöt og sá stærsti sem fundist hefur en honum var skipt í 9 stóra steina og marga smærri. Cullinan er kenndur við frægustu demantanámuna en þar fannst 2009 stór steinn 507 karöt og rataði í heimspressuna.

Helstu “framleiðendur” demanta eru löndin Botswana og Namibía, fyrirtækin De Beers, með 40% heimsmarkaðsins, Rio Tinto, BHP Billiton, Lev Leviev, Harry Winston og Alrosa. Auk Suður Afríku eru Rússland, Kanada og Ástralía stórir framleiðendur.

 

PERLUR – Eðalsteinar hafdjúpanna

Lýtalausar perlur hafa löngum verið taldar tákn fullkominnar fegurðar.  Á dögum Rómaveldis voru perlur í slíkum hávegum hafðar að einungis fáum háttsettum embættismönnum veittist sá heiður að bera þær.  Sem betur fer hefur framboðið aukist í aldanna rás þannig að venjulegt fólk getur eignast þessa dýrgripi.

Perlur eru mikið keyptar til gjafa.  Hátt verð virðist ekki draga úr eftirspurn eftir þessum fallegu eðalsteinum hafsins því að þeir munu halda gildi sínu í tímans rás.

 

MYNDUN

Perlur myndast í vatni, bæði söltu og ósöltu.  Flest lindýr eða hryggleysingjar sem hafa skel geta framleitt perlur.  Raunverulegar perlur, þær perlur sem seldar eru í verslunum myndast í sérstökum ostruskeljum.

Þegar utanaðkomandi hlutur kemst inn í himnu skeljarinnar myndast um hann hjúpur.  Frumurnar sem framleiða skelina setjast á aðkomuhlutinn og mynda mörg lög af perluhúð utan um hann.  Það getur tekið um fjögur ár að mynda perlu af réttri stærð.

Perlur geta verið af ýmsum stærðum og lögun.  Hnöttóttar perlur verða til þar sem enginn utanaðkomandi þrýstingur er.  Óreglulegar perlur verða til í vöðvavef sem hefur orðið fyrir þrýstingi í byrjun.

 

RÆKTAÐAR PERLUR

Náttúrlulegar perlur eru sjaldgæfar.  Persaflói var áður eitt af ríkustu perlusvæðum heims enda eru austurlenskar perlur þekktar fyrir fallegan lit og djúpan gljáa.

Flestar perlur eru nú á dögum ræktaðar.  Uppruna perluræktunar má rekja til Kína en japanir fullkomnuðu tæknina.  Árið 1890 uppgötvaði japani að  með því að setja litla perlu, svokallaða perlumóður inn í skelina næðist bestur árangur í ræktun.

Ræktaðar perlur koma frá Japan, Búrma, Tahiti og Ástralíu.

 

UMHIRÐA

Perlur eru viðkvæmar og rispast því auðveldlega.  Þess vegna eru perlu notaðar í skartgripi þar sem þær eru vel varðar t.d í festar og hringa.

Nauðsynlegt er að hreinsa perlur eftir notkun því að ilmvatn og hárlakk getur skemmt gljáa þeirra.

 

VERÐMÆTI

Verð perla fer eftir stærð þeirra, lögun og gljáa.  Sjaldgæft er að þvermál perla sé meira en 7 – 7,5 mm.

_________________________________________________

AKOYA PERLUR:

Eru klassískar ræktaðar perlur sem komu fram um síðustu aldarmót.  Þær eru hvítar, rósrauðar, ljósar, grænhvítar og gráar.  Hnöttótt lag perlanna er fyrirfram ákveðið og er fengið með séstakri aðgerð á skelfiski sem veiddur er í Mississippi fljóti.  Akoya perlur eru ræktaðar uns þær verða 2-11 mm sverar.  Mjög erfitt er að rækta þær yfir 9 mm og því eru slíkar perlur afar dýrar.

 

BIWA PERLUR:

Eru kjarnalausar ferskvatnsperlur sem ræktapar eru í Biwa hafi nálægt hinni öldnu keisaraborg Kyoto.  Ástæða margbreytilegs útlit Biwa perlanna liggur í perluvefnum sem gfæddur er í Biwa ostruna (Hyriopsis schlegeli).  Þær eru til í bleiku, laxableiku, gulbrúnu og gráu.

 

KÍNA PERLUR:

Eru eins og nafnið bendir til ræktaðar í Kína.  Þær eru kjarnalausar ferskvatns perlur og líkar Biwa perlum að lögun og lit.  Þær eru ræktaðar á svipaðan hátt og Biwa perlurnar en skera sig rá þeim vegna óreglulegs yfirborðs.  Litir Kína perla eru blæbrigðaríkir, seiðandi og mildir.

KESHI PERLUR:

Eru kjarnalausar perlur sem ræktaðar eru í söltu vatni.  Form Keshi perlanna er óreglulegt, jafnvel skríngilegt.  Þær eru til í ýmsum litum: gráu, hvítu, rósrauðu og gylltu.

 

SUÐURHAFSPERLUR:

Eru meðal dýrustu ræktaðra perla.  Þær verða til í silfurlituðum perluostrum (Pinctada maxima) og eru ræktaðar í Suðurhöfum.  Heimkynni þeirra er í Búrma, Tælandi, Indónesíu, Filippseyjum og Tahiti en þó er mest að þeim við norðuströnd Ástralíu.  Oftast eru Suðurhafsperlur silfurgráar að lit en geta einnig verið rósrauðar, gylltar, gráar og svargráar.  Þvermál þeirra er yfirleitt um 10mm.

 

ÓEKTA PERLUR:

Eiga ekkert skylt við raunverulegar perlur nema lit og lögun.  Þær eru ýmist búnar til úr perluskejamassa eða plasti.

 

Úr gullkistu Dóru:

Kóngavatn dregur nafn sitt af því, að það leysir upp gullið, sem gömlu efnafræðingarnir útnefdu konung málmanna. Það var einnig óréttilega kallað gulllegvatn, því það aðskilur gull frá silfri.. Við það að blanda saltpéturssýru með saltsýru, skilja þessi efni sig og mynda ný sambönd. Vetnið í saltsýrunni bindur sig við hluta af súrefni salt-péturssýrunnar, sem myndar vatn, klór og saltpéturssýring; þessi aðskilnaður heldur áfram, þar til næst visst jafnvægi í löginn.

Venjulega er teknir 3 hlutar saltsýru á móti 1 af saltpeturssýru, séu báðar af sama styrkleika, til að leysa upp gull.

Hægt er að laga kóngavatn á fleiri mismunandi vegu, með ví að uppleysa salmíak í saltpéturssýru, matarsalt í saltpéturssýru eða leysa upp saltpétur í saltsýru. Við það að nota salmíak eða matarsalt, þar sem maður veit að saltpétur  inniheldur klór ammonium og matarsalt hefur líka málmfrumefni sem er natríum, aðskilst hluti af saltpéturssýrunni, sem tengir súrefnið við málmsaltið þar sem myndast saltpéturssýringur og klór.

Úr molum Ernu er hér saga af gullsmið sem gerðist fyrir réttum 230 árum:

Í „Öldinni Átjándu” sem Jón Helgason tók saman má lesa um Jón gullsmið Ólafsson. Hann bjó í Lögmannshlíð í Eyjafirði. Var það mál manna að hann gæti smíðað hvern hlut sem hann eitt sinn augum leit. Í janúar 1781 leitaði fátækur húsmaður sem þjáðist af vatnssýki á hans náðir. Smíðaði Jón sér lítinn bíld og stakk gat á kviðarhol mannsins, smeygði í það fjöðurstaf og lét renna út á að giska einn pott. Að því búnu setti hann tappa í stafinn og batt um sem vandlegast. Daginn eftir lét hann renna álíka mikið. Þetta endurtók hann daglega uns ekki vætlaði út um fjöðurstaf-inn. Skömmu síðar gekk sjúklingurinn frískur að verki sem aðrir menn

Posted in Fræðsla.