Hringur á fingur


Félag íslenskra gullsmiða fagnaði 85 ára afmæli félagsins í skugga bankahrunsins. Gullsmiðir létu ekki neinn bilbug á sér finna og efnt var til samsýningar í Fógetahúsinu, Aðalstræti 10, þar sem hönnunarverslunin Kraum er til húsa. Við opnun sýningarinnar, þann 24. október 2009, hélt rithöfundurinn Sigurður Pálsson erindi um hringinn í víðum skilningi, en heiti sýningarinnar var -Hringur á fingur-.

27 smiðir tóku þátt, allt frá nýliðum til heiðursfélagans Jens Guðjónssonar. Sú nýbreytni var þetta ár að fenginn var ungur listamaður, Atli Freyr Júlíusson, til að taka myndir af öllum hringunum. Myndirnar voru notaðar í bækling auk þess sem 34 vandaðar útprentanir voru gerðar. Þessar útprentanir flutti formaður félagsins, Reynir Már Ásgeirsson, á Íslendingaslóðir í Kanada. Þar opnaði hann sýningu í New Iceland Heritage Museum (NIHM) 17. október 2009 og hélt að því tilefni erind um sögu gull-og silfursmíði á Íslandi. Við opnunina var leikið á langspil og barnakór flutti kvæði um komu Íslendinga til nýja heimsins. Sýningin vakti mikla athygli og fjallað var um hana í fjölmiðlum þar ytra. Félagið hélt því 2 afmælissýningar þetta ár sem stóðu yfir á sama tíma í sitthvorri heimsálfunni.

Sýningarnefndina skipuðu Guðbjörg Kr. Ingvarsdóttir, Anna María Sveinbjörnsdóttir, Lovísa Halldórsdóttir Olesen og Unnur Eir Björnsdóttir, þeim til fulltingis var Margrét Jónsdóttir.

AR

Posted in Fréttir.