Saga Steinunnar Og Mörtu.

Um miðja síðustu öld voru hjónin Vigfús Jónsson og Steinunn Ólafsdóttir í Hundastapa. Hann var hreppstjóri og mikilsmetinn maður, en hún var ljósmóðir og oft sótt til hjálpar ef einhver slasaðist.

Þá voru ekki lærðar ljósmæður, heldur bara laghentar manneskjur, sem voru duglegar að hlálpa.

Þau eignuðust fjórar dætur. Halldís var elst f. 1824. Þegar hún var 19 ára kom maður að biðja hennar. Hann gerði boð fyrir foreldrana og þau féllust á að gefa honum dóttur sína.

Þau giftust svo, en hann tók það fram að hún þyrfti ekki að koma með neinn heimanmund, því hann ætti nóg efni. (Hann var ekkjumaður og mun eldri)

Næsta dóttir hét Margrét, f. 1825. Hún varð fyrir því óláni að verða hrifin af bónda sem bjó á næsta bæ, hann hét Guðmundur og var giftur maður og átti nokkur börn með sinni konu. Þetta fór mjög leynt, þar til að auðséð var að Margrét var barnshafandi. Þá var gengið á hana til að fá að vita hvernig á þessu stæði og sagði hún þá eins og var að Guðmundur í Hömrum væri faðir að barninu. Henni var þá komið í burtu og eignaðist hún son, sem dó mjög fljótt eftir að hann fæddist.

Síðan kom Margrét aftur heim að Hundastapa og giftist ágætum duglegum manni Jóni Finnssyni og tóku þau við búi foreldra hennar. Þau eignuðust marga syni og eina dóttur, allt ágætis fólk.

Þriðja dóttirin Guðrún f, 1835 var nú að verða gjafvaxta. Þá kom að Hömrum bróðir Guðmundar, Stefán gullsmiður, sem hafði verið í Danmörku og Noregi í 19 ár. Hann var kominn undir fertugt, þegar hann kom heim til Íslands. Þá af einhverri tilviljun eða örlögum hitti hann gullfallega kornunga stúlku, sem hann bað um að vísa sér til vegar og gerði hún það og vísaði honum að Hömrum, þar sem Guðmundur bróðir hans bjó.

Þessi glæsilegi heimsmaður settist nú að í huga sveitastúlkunnar. Hún hafði aldrei séð svo falleg föt, saumuð eftir nýustu tísku utan úr heimi. Hér voru allir í vaðmálsfötum, heimagerðum og fóru þau misjaflega vel og hann var kátur og skemmtilegur í tali og ánægður yfir að vera kominn heim. En hún hafði vit á því að nefna þetta ekki heima hjá sér, því það var algjörlega bannað að tala nokkuð um Hamrafólkið, það var aldrei á það minnst vegna þess sársauka sem Guðmundur í Hömrum hafði valdið.

En Íslendingurinn, sem svo lengi var búinn að vera í burtu og hafði alltaf þráð fólk sitt og ættjörðina, hann gleymdi ekki heldur bláum augum, sem horfðu á hann full af trausti og undrun og einhvern veginn atvikaðist það svo að þau áttu oft eftir að hittast ein í fegurð sveitarinnar, hún skrapp oft á hvöldin til að sækja kýrnar og þær voru stundum saman við Hamrakýrnar, af því að löndin lágu saman, en á þetta var aldrei minnst. Svo leið og beið,

þá fer Guðrún að þykkna undir belti og vill þá Stefán fá að tala við foreldra hennar og biðja um hönd dótturinnar og loks lætur hún undan og hann kom að Hundastapa í þeim erindum að biðja Guðrúnar, en því var alveg neitað, meðfram af þeirri ástæðu að hann hafði enga jörð til að búa á, á þeim tíma var það eini möguleikinn til að giftast, að hafa jörð til að búa á. Svo líður að því að Guðrún eignast dóttur,en þá er hún ekki skírð, sem þó var ævinlega gert strax á fyrstu dögum eftir að barn fæddist. Guðrún kallaði hana Steinunni í höfuðið á móður sinni.

Og enn líður tíminn og aftur verður Guðrún þunguð og þá hafði Stefáni tekist að fá leigða jörð, Hítarneskot í Kolbeinsstaðahreppi. Nú fer hann í annað sinn að biðja um Guðrúnu og fær þá jáyrði hjá foreldrum hennar. Svo voru þau gift heima í Hundastapa og var þá Steinunn litla skírð um leið og var þá kölluð hjónabandsbarn. Svo fóru þau að búa í Hítarneskoti og eignuðust þau aðra dóttur, hún var skírð Halldóra eftir móður Stefáns. Þar næst eignuðust þau þriðju dótturina, hún var skírð Marta Elísabet, eftir vinkonum Guðrúnar, sem voru í Hítarnesi.

Næst eignuðust þau fjórðu dótturina, hún var skírð Ingveldur, en þá nokkru seinna fékk Guðrún taugaveiki og dó úr þeirri veiki.

Steinunn litla var kyrr hjá afa og ömmu og ólst þar upp í miklu eftirlæti, hún þótti alla tíð mjög falleg. Halldóra fór í fóstur til föðurbróður síns, sem hét Benedikt og bjó í Hjörsey. Marta Elísabet fór í fóstur til Halldísar móðursystur sinnar, en Ingveldur fór með föður sínum til Guðmundar í Hömrum og ólst þar upp. Hún kynntist seinna Hundastapafólkinu og varð því mjög kær og var alltaf velkomin að Hundastapa, þó að aldrei væri samgangur á milli bæjanna.

Yngsta dóttirin hét Þórdís f. 1837.

Halldís

Margrét

Guðrún

Þórdís

 

Þetta er gömul samantekt, sem við fengum mömmu einhverntíma til að skrifa niður.

Kveðja Dóra.

Posted in Fréttir.