Arna stjarna formaður FÍG átti frumkvæði að því að netnefnd, í hennar fylgd, heimsótti Sigurð Hrafn Þórólfsson gull- og silfursmið og konu hans Margréti Ragnarsdóttur. Margrét og Sigurður tóku á móti föruneyti FÍG á fallegu heimili þeirra í Mosfellsbæ. Mikið af haganlega gerðum skipslíkönum prýða heimilið ásamt öðrum listmunum úr smiðju Sígurðar. Fyrsta skipslíkanið hans var af Vasa skipinu fræga smíðað 1962. Það var svo árið 1972 sem Sigmar Maríusson, í heimsókn hjá Sigurði, gaf honum gaskveikigræjur að hann hóf að smíða líkön úr málmi. Þar var kúrsinn settur sem skilað hefur einstöku handverki á heimsmælikvarða. ,,Þegar mikil vinna er lögð í smíði er viturlegt að nota eðalmálma” segir Sigurður.
Arna skoðar líkan af skipi Sir Francis Drake Gullnu hindinni sem er mikil völundarsmíð, aðdáunin leynir sér ekki í augum formannsins.
Mynd frá sumardeginum fyrsta 1994 þegar útflutningsverðlaun forseta Íslands voru afhent á Bessastöðum af Vigdísi Finnbogadóttur forseta. Það var Sæplast á Dalvík sem fengu verðlaunin og gripinn sem Sigurður smíðaði.
Sigurður lauk sveinsprófi 1992. Hann naut leiðsagnar Sigmars Maríussonar og Stefáns Boga Stefánssonar þegar á þurfti að halda en er að mestu sjálfmenntaður. Áður hafði hann lokið iðnskólanámi á Sauðárkróki. Sveinsstykki hans er víkingaskip með miklu drekahöfði sem Vigdís Finnbogadóttir, þá forseti, fékk að gjöf frá Skagfirðingum. Hann lærði líka á trompett hjá Karli O. Runólfssyni og síðar Jóni Sigurðssyni, lék með Lúðrasveitinni Svanur og söng með Karlakórnum Stefni í 17 ár.
Sigurður útskýrir tilurð nákvæmrar eftirmyndar gufuvélar sem hann smíðaði og snýst þegar hleypt er á hana lofti:
Sigurður hefur haldið fjölmargar einkasýningar og hlotið viðurkenningar heima og erlendis. Hann hefur hlotið lista- og menningarverðlaun Mosfellsbæjar og fengið heiðurslaun sem bæjarlistmaður Mosfellsbæjar. Í grein sem birtist í Morgunblaðinu 1996 vegna sýningar i Gerðarsafni má lesa eftirfarandi:
,,Margir hlutirnir sem Sigurður hefur skapað er agnarsmáir, einkum í skipslíkönunum, en hann líkir eins nákvæmlega eftir fyrirmyndinni og kostur er. Nefnir Sigurður sem dæmi líkan af Hval 8, sem hann smíðaði um árið, en þá fylgdi hann teikningum af skipinu út í ystu æsar. “Í því tilfelli þorði ég reyndar ekki að taka neina áhættu, enda er Kristján Loftsson forstjóri Hvals hf. kröfuharður maður sem gjörþekkir skipin sín.”
Gullna hindin.
Skutur Gullnu hindarinnar.
Segja má að hinar öfgarnar hafi komið fram þegar Sigurður var að glíma við Húnaröstina SF, en þegar upp var staðið kom í ljós að peran var of stór á líkaninu. Hákon Magnússon skipstjóri og aflakló lét það hins vegar ekki á sig fá, heldur lét einfaldlega breyta Húnaröstinni í samræmi við líkanið. “Ég veit ekki betur en það hafi gefið góða raun,” segir Sigurður.”
Hér má sjá umfjöllunina í heild í Mbl. frá 1996 um sýninguna í Gerðarsafni.
Margrét, sem kölluð er Gréta, hefur einnig fengið listræna hæfileika í vöggugjöf sem sjá má í ýmsu handverki fjölskyldunnar. Hún er vel inní því sem Sigurður fæst við og sýndi ýmis verkfæri sem hún hefur á valdi sínu m.a. tæki til léttmálmssteypu. Á myndinni að ofan sýnir hún Örnu stjörnu myndir af fögrum smíðisgripum bónda síns. Hún bauð líka uppá ljómandi gott kaffi með heimabökuðu kruðeríi í sérflokki svo listhneigðin er hjónunum í blóð borin og gleður öll skilningarvit.
Arna og Sigurður bera saman bækur sínar við vinnuborð Sigurðar. Hann hefur af mikilli hugkvæmni sérútbúið verkfæri og tæki til að auðvelda vinnu sína. Verkefni af ýmsum toga og fjölbreytt efni eins og birki og íslenskir steinar voru í vinnslu. Fagurt skart og nytjahlutir.
Gréta og Arna.
Netnefnd þakkar heiðurshjónunum, sem hafa notað tíma sinn í að fegra umhverfið í mörgum skilningi, hlýlegar móttökur og óskar þeim alls góðs.
Hollensk snekkja.
Varðskipið Týr.
Tenglarnir að neðan eru inná greinar og viðtöl. Í greininni í Mosfellsblaðinu frá 2001 er skemmtileg saga af ferðalagi Sigurðar og tveggja manna frá Hallormsstað til Reykjavíkur á gömlum Chevrolet.
http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1012065/ Mbl. 14. apríl 2005 vegna sýnignarinnar Vorvindar í Norræna húsinu.
http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3231848&lang=en Mosfellsblaðið 1.6. 2001. ,,Það má alltaf fá annað skip”, viðtal.
AR