Sigmar Ó Maríusson

Netnefnd leit inn hjá Sigmari Maríussyni gullsmið og heiðursfélaga FÍG á fallegum sprengidegi þegar 10 dagar eru eftir af þorra.  Sigmar er með verkstæði sitt við Suðurbraut 9 í Kópavogi.  Margir muna eftir honum við Hverfisgötu 16A þar sem hann var með fyrirtæki sitt Módelskartgripi í 33 ár.  Mikið af veglegum gripum prýða hillur og skápa, veglegast er silfurhorn eitt mikið sem Sigmar smíðaði fyrir afmælissýningu FÍG í Gerðarsafni 2004.

Fæstir vita að Sigmar er í stjórn Hins íslenska skrímslafélags.  Hann hafði fyrr um daginn svipast eftir skrímslum úti á Álftanesi í ljómandi góðu veðri.  Þau voru lítið á kreiki en nokkru áður hafði hann smíðað fjörulalla sem hér sést:

Skemmtilegt andrúmsloft er á verkstæðinu, glaðlegt fólk lítur inn og sögur af skemmtilegu fólki sagðar og kviðlingar á lofti.  Sigmar er mikill sagnamaður og kann ógrynni af vísum.  Eina vísu um Steingrím J. sveitunga Sigmars fór hann með og hermdi eftir eiganda vísunnar, Halldóri Blöndal, af listfengi á eftirminnilegan hátt:

Hrútur var í holti vænn

en hann er dauður.

Steingrímur er stundum grænn

og stundum rauður.

Þekktastur er Sigmar fyrir að herma eftir Stefáni frá Möðrudal.  Gaf hann úr stórskemmtilegan disk með sögum af Stefáni árið 1999, lengi ófáanlegur en er væntanlegur á næstunni.  Þjóðþekktir menn koma þar við sögu auk listamannsins eins og þeir Pétur Hoffmann og Gunnar Huseby ásamt hrútunum Valgripi og Kurta svo nokkrir séu nefndir.  Mörg önnur húsdýr koma þar fyrir eins og ærin Herðakambsdíla og hesturinn Stórirauðurararat.

Margar frásagnir Sigmars tengjast Norðausturlandi þar sem rætur hans liggja.  Minntist hann á að í þessum mánuði, febrúar, fyrir réttum hundrað árum gerðust atburðir sem nefndir hafa verið Hvammsundur.  Um nokkurra mánaða skeið gekk allt á afturfótunum á bænum Hvammi í Þistilfirði, húsmunir skemmdust og óútskýranlegir atburðir áttu sér stað.  Tengdust þeir vinnukonu sem kom á bæinn og vöruðu meðan hún var þar í vist.  Jafnskjótt og hún flutti þaðan féll allt í ljúfa löð.   Þess má geta að 1939 gaf Benjamín Sigvaldason út bók sem hann nefndi: Reimleikarnir í Þistilfirði fyrir 26 árum.  Hér má lesa meira um Hvammsundrin.

Meistari Sigmars var Halldór Sigurðsson, árin 1958 – 1962.  Starfaði Sigmar hjá honum 2 ár eftir að námstíma lauk.  Eigið verkstæði frá 1964 til dagsins í dag.  Formaður FÍG eitt ár, eins og segir í Félagatali FÍG frá 1991.  Sjálfur hefur Sigmar útskrifað 6 nema: Ingimar Örn Davíðsson, Stefán Boga Stefánsson, Berglaugu Selmu Sigmarsdóttur, Pálma Dag Jónsson, Sigurð Hrafn Þórólfsson og Höllu Bogadóttur.  Netnefnd þakkar Sigmari fyrir góðar móttökur, skemmtun og fyrir þann fróðleik sem hann jós af örlæti.

AR

Posted in Heimsóknir.