Sigurður H. Bjarnason gullsmíðameistari

Bróðir minn, Sigurður Hegri Bjarnason, eins og hann var skírður fullu nafni var fæddur á Rein í Skagafjarðarsýslu þann 5. október 1912. Hegranafnið vildi hann aldrei heyra og losaði sig við það um fermingu, eftir því sem ég best veit.

Foreldrar okkar voru Bjarni Oddson, fæddur í Hólakoti í Fljótum í Skagafirði þann 4 desember 1867, látinn á Siglufirði 14. apríl 1942 og Filippía Þorsteinsdóttir fædd á Ytra-Skörðugili á Langholti í Skagafirði 7. september 1874, látin í Reykjavík 7. desember 1962. Systkini Sigurðar voru: Ólöf Jóhannesdóttir (sammæðra) f. 1902 – d. 1952, Rögnvaldur Freysveinn Bjarnason, múrarameistari, f. 1910 – d. 1968, Anton Bjarnason, málarameistri, f.  1914 – d. 1992 og undirritaður fæddur 18. janúar 1917.

Mun foreldrum okkar hafa búnast vel í Rein á meðan þau höfðu aðgang að gjöfulum engjum en sjálft túnið var aðeins aflangur hóll sem naumast gaf kýrfóður af heyi.  Þegar eigandinn tók þær undan kotinu fluttu þau burt.

Sigurður hlaut þau örlög að fæðast holgóma með skarð í vör. Hann þjáðist af minnimáttarkennd sem hann reyndi að hrinda frá sér með grobbi og fáráðlegu tali á stundum.  Strax í barnaskóla bar á listrænum hæfileikum hjá honum.  Hafði hann fagra rithönd svo eftir var tekið, og einnig var hann sérlega góður teiknari.

Hann fór á Alþýðuskólann á Laugum og nam síðan gullsmíði hjá Kristni Björnssyni gullsmiði á Siglufirði. Sigurður varð fjölhæfur mjög í greininni, virtist jafnvígur á víravirki, hringasmíði, sem dósa- og pontusmíði fyrir neftóbak, auk smíði á  borðbúnaði.  Einnig hafði hann leturgröft á valdi sínu.  Að loknu iðnnámi vann hann sjálfstætt á verkstæði sem hann kom sér upp í skúr að baki að Túngötu 12 á Siglufirði sem var heimili fjölskyldunnar.  Það fór hins vegar fljótlega að bera á geðrænum kvillum hjá honum og ekki fór milli mála að með árunum fór geðveikin að ágerast hjá honum.

Ólöf systir okkar hringdi í mig eitthvað um tveimur árum eftir að ég flutti á Akranes, en þangað flutti ég árið 1941, og sagði Sigurð orðinn svo erfiðan að hún væri uppgefin.  Það varð því úr að ég sótti hann og útvegaði  honum verkstæðispláss á Akranesi og samdi við vin minn Helga Júlíusson, úrsmið og skartgripasala um að selja smíðisgripi Sigurðar gegn 10% gjaldi.  Þetta gekk í u.þ.b. tvö ár, en þegar  ég var að sækja hann í mat einn daginn var hann kominn með flutningabifreið úr Reykjavík til að flytja sig þangað.

Sigurður fékk vinnu á gullsmíðaverkstæði Jóns Sigmundssonar eftir að hann flutti til Reykjavíkur.  Hann starfaði þar um árabil á meðan að heilsan entist.  Þegar hann starfaði þar smíðaði hann m.a. annars borðbúnað fyrir Forsetaembættið á Bessastöðum.  Þess skal getið að hann var meistari fyrir verkstæðinu á meðan Guðmundur gullsmiður, sem fór fyrir verkstæðinu, var að vinna tíma til fullra meistararéttinda.  Fyrir vikið, þegar heilsan var orðin mjög slæm, fékk hann að koma þegar hann treysti sér til vinnu á verkstæðinu, sem tók að verða mjög slitrótt uns hann hætti störfum.

Sigurður dvaldi síðustu æviár sín á elliheimilinu í Hveragerði.  Hann lést 30. október 1994.

Akranesi í desember 2011.

Stefán Bjarnason, frv. yfirlögregluþjónn.

Posted in Heimsóknir.