Nonni Gull

Nonni gull við Strandgötu 37.

Jón Halldór Bjarnason lærði gullsmíði hjá föður sínum Bjarna Þorgeiri Bjarnasyni. Bjarni og Þórarinn Gunnarsson gullsmiður ráku saman fyrirtæki sem nefnt var eftir þeim Gullsmíðaverkstæði  Bjarna og Þórarins.

Þeir hófu starfsemi 1954 fyrst við Bergstaðastræti síðar við Laugaveg. 1968 festa þeir kaup á húsnæði Wilhelms Norfjörð við Hverfisgötu 49.

Jón Halldór Bjarnason gullsmíðameistari í verslun sinni.

Þar starfar Jón Halldór til 1980. Það ár flytur hann til Hafnar í Hornafirði þar sem hann rak  gullsmíðaverkstæði ásamt úra- og skartgripasölu meðfram því að stunda sjóinn enda stutt á gjöful mið.

Árið 2000 kaupir Jón Halldór fyrirtækið eftir að félagarnir sem oft voru kallaðir Tóti og Bjarni voru báðir látnir, Bjarni 1995 og Þórarinn 1999.

Gamla gullsmíðaborðið frá þeim Bjarna og Þórarni.

2007 kaupir Nonni gull sögufrægt fyrirtæki  við Strandgötu 37 í Hafnarfirði sem þá nefndist Gunni Magg. Gunni Magg er sonur Magnúsar Guðlaugssonar úrsmiðs  sem keypt hafði fyrirtækið af Má úrsmið sem var sonur Einars úrara sem byggði húsið 1925. Sama starfsemi hefur því verið í húsinu til þessa dags.

Jón Halldór eða Nonni gull í versluninni. Að baki sýningarskápar, vinnuborð og dyr að sjálfu verkstæðinu sem er vel tækjum búið.

Nonni gull er þekktur fyrir smíði á töfrarúnum og galdrastöfum sem margar verslanir selja. Einnig smíðar hann búningasilfur, trúlofunarhringa og sinnir sérsmíði hvers konar.

Alhliða viðgerðaþjónusta, leturgröftur, rafhlöðuskipti, gylling og göt í eyru er hluti af þjónustunni sem í boði er. Einnig má geta þess að Nonni framleiðir muni fyrir aðra gullsmiði og ýmis fyrirtæki enda klyfjaður reynslu.

Silfur á kvenbúninga ásamt ýmsu þjóðlegur skarti

Þegar netnefnd kvaddi nefndi Nonni að hann hyggðist jafnvel selja fyrirtækið. Er því hér með komið á framfæri ef einhver  gull- eða úrsmiður er á höttunum eftir ráðsettu fyrirtæki. Ekki spillir að i 100 ár og 8 skemur hafa viðskiptavinir sótt alla þjónustu sem tengist skarti og úrum í Strandgötu 37.

Hluti verkstæðisins. Sjá má steypuvél sem notuð er við framleiðslu á m.a. töfrarúnum og galdrastöfum. .

Netnefnd þakkar Nonna gull fyrir góðar móttökur og óskar honum góðs gengis.

AR

Posted in Heimsóknir.