Dóra G. Jónsdóttir

Dóra Guðbjört Jónsdóttir gullsmíðameistari.

Það var fallegt bros sem mætti netnefnd þegar bankað var upp hjá Dóru G. Jónsdóttur í Gullkistunni við Frakkastíg. Þar var komin til dyra Hrund Einarsdóttir. Ekki laust við októberglampa í augum hennar enda undurfallegur dagur. Hrund og Dóra voru að fá sér kaffisopa með ungum manni frá Grikklandi, Apostolis Theodoratos. Apostolis, sem er lærður gullsmiður, var að kynna sér víravikissmíði undir leiðsögn Dóru og Hrundar.

        

Apostolis Theodoratos við vinnu sína.

Það er óhætt að segja að Dóra njóti ómældrar virðingar innan gullsmiðastéttarinnar. Hún er hafsjór þekkingar og óþreytandi í að deila þeirri visku sinni og safna fyrir framtíðina. Hún er heiðursfélagi í Félagi íslenskra gullsmiða og hefur hlotið hina íslensku fálkaorðu. Verkstæði hennar ber með sér andblæ liðins tíma en er jafnframt því vinnustaður.

Á heimasíðu Gullkistunnar má lesa um sögu fyrirtækisins:

,,Verkstæði Gullkistunnar hefur verið starfrækt frá því um 1870. Þá var það verkstæði Erlendar Magnússonar gullsmiðs til 1909.

Magnús Erlendsson gullsmiður, sonur hans lærði hjá honum og rak fyrirtækið til 1930.

Jón Dalmannsson gullsmiður keypti þá verkstæðið, sem staðsett var í Þingholtsstræti 5.

Verkstæðið flutti hann seinna að Vitastíg 20 og 1938 að Grettisgötu 6. Árið 1946 var gamla timburhúsið að Grettisgötu 6  flutt inn  í Kleppsholt og nýtt hús byggt. Á meðan var verkstðið starfrækt á Grettisgötu 2.

1949 flutti verkstæðið aftur að Grettisgötu 6 í nýja húsið og þar var jafnframt verslun. 1952 flutti fyrirtækið í hús Fatabúðarinnar og opnaði þar ásamt Sigurði Tómassyni úrsmið. Eftir það hét það Skrautgripaverslun Jóns Dalmannssonar.

Jón rak fyrirtækið til dauðadags 1970, en þá tók dóttir hans Dóra Guðbjört Jónsdóttir við rekstrinum. Hún  lærði hjá föður sínum, einnig við Kunstfakskolan í Stokkhólmi og Vereinigte Goldschmiede- und Kunstgewerbeschule í Pforzheim í Þýskalandi. 

1976 flutti fyrirtækið að Frakkastíg 10 og fékk þá nafnið Gullkistan. Þá voru starfandi 4 gullsmiðir og 2 afgreiðslustúlkur.”

Hrund Einarsdóttir með silfurstjaka sem lagfæra þurfti.

Eins og að framan greinir er saga verkstæðisins á gömlum grunni og margt forvitnilegt að sjá. Á myndunum að neðan eru verkfæri mörg hver áratuga gömul og jafnvel yfir hundrað ára samt í fullri notkun. Dóra útskýrði hlutverk eins þeirra sem kallast rendla. Hún er notuð til að setja jafnar línur eða rendur í t.d. skúfhólka.

 

 

Rendlan var haganlega smíðuð úr gamalli þjöl.

   

Hrund við vinnu. Skápurinn sem sést geymir gömul mót, sum merkt löngu gengnum gullsmiðum.

Hillan að ofan geymir ýmis efni, ef klikkað er á hana má sjá hauskúpu sem gefur til kynna hættulegt innihald.

Göt fyrir hringakeilur í borði Hrundar.

,,Fyrirtækið hefur alltaf boðið upp á fjölbreytt úrval af þjóðbúningasilfri og unnið er meðal annars eftir gömlum munstrum, sem Erlendur Magnússon hafði safnað og mótin, sem gerð voru fyrir sandsteypu fylgdu verkstæðinu. Enn er farið eftir þessum gömlu munstrum, en gömlu mótin eru nú komin í varðveislu í Árbæjarsafni.”  Af heimasíðu Gullkistunnar.

Gullkistan er gullkista í mörgum skilningi. Dóra minntist nema sem höfðu lært hjá henni að smíða víravirki og annað sem tilheyrir gull- og silfursmíði. 2 þýskar stúlkur Ulrike og Alexandra voru henni minnistæðar fyrir dugnað og vandvirkni þótt langt árabil skildi að veru þeirra á Íslandi.

 

Netnefnd þakkar þeim Dóru, Hrund og Apostolis góðar móttökur og óskar þeim velfarnaðar á öllum sviðum og ekki síst í því að geyma og deila verkmenningu sem á undir högg að sækja.

 

http://www.thjodbuningasilfur.is/index.php

http://www.youtube.com/watch?v=sera5Ci-UnA

http://www.youtube.com/watch?v=iXeZPyHg1ak

https://www.facebook.com/djonsdottir

http://www.mbl.is/frettir/forsida/2011/01/01/tolf_saemd_falkaordu/

 

-AR

Posted in Heimsóknir.