Gullsmiðja Hansínu Jens

Þær Hansína Jens og Jóhanna Guðrún Jónsdóttir tóku vel á móti netnefnd FÍG þegar guðað var á gluggann hjá þeim í Dugguvogi 10. Þar er verkstæði Hansínu og heimili sem hún hefur búið sér og börnum sínum af mikilli smekkvísi.

Hugguleg stemming hjá þeim stallsystrum þar sem þær fá sér rjúkandi gott morgunkaffi og buðu netnefndinni með.

Hansína umkringd skúlptúrum og ýmsum listmunum. Hún vinnur bæði sem mótlistamaður og gullsmiður og notar blöndu ólíkra efna í listsköpun sinni, s.s. stál, silfur og gull sem mynda gjarnan andstæður. Hansína hefur hannað mikið af sérstæðum skartgripum, m.a. úr íslenskum steinum sem hafa ríka skírskotum í náttúru landsins.

Jóhanna við vinnuborð sitt. Hún útskrifaðist 2004 frá Iðnskólanum eftir að hafa lokið starfsnámi hjá Hansínu og Jens. Það er því 10 ára útskriftarafmæli í vor.

Hansína útskýrir verkefni sem hún vinnur að fyrir sýningu FÍG, Samspil sem haldin verður 27.-30. mars  í Hörpu og tengist HönnunarMars.

Þær segja notalegt að vinna í iðnaðarhverfinu sem Dugguvogur tilheyrir.

Jens Guðjónsson faðir Hansínu vakir yfir dóttur sinni og Jóhönnu. Undirritaður netnefndarmaður kynntist ungur Jens enda frændur. Það er minnistætt að um 11 – 12 ára aldur hitti ég hann oft á leið í skólann í strætó. Hann settist alltaf hjá mér og ræddi um heimspekileg málefni eins og við jafningja, hlustaði á mín sjónarmið af fullri virðingu. Þessar minningar eru ljóslifandi ennþá enda sjaldgæft fyrir barn að mæta slíku viðmóti. Ég man að hann sagðist oft hafa átt samtal við pabba minn á svipuðum nótum áratugum fyrr, um heimspeki og pólitík. Alla tíð mætti ég þessu viðmóti, síðast við opnun sýningar í Kraum Aðalstræti og fékk eftir heimsókn hans, að ganga með honum að bíl þar sem við kvöddumst í síðasta sinn.

Flottar stelpur og létt andrúmsloft á verkstæðinu þar sem greinilegt er að mörg verkefni bíða úrlausnar. Auk skúlptúra og listmuna eru smíðaðir skartgripir sem seldir eru ferðamönnum sem kunna vel að meta.

Netnefnd þakkar góðar móttökur og óskar þeim Hansínu og Jóhönnu alls góðs.

Bragi Ásgeirsson fjallar um Hansínu í Mbl.6. des. 1996:  http://www.mbl.is/greinasafn/grein/302914/

Heimasíða Hansínu Jens á ensku: http://www.hansinajens.is/Hansina_Jens/HJ_Home.html

Hansína á fésbók: https://www.facebook.com/pages/Gullsmi%C3%B0ja-Hans%C3%ADnu-Jens/207241288461

Gallery Grandi, úrval gripa eftir Hansínu: http://gallerigrandi.com/index.php/80-gallerigrandi/123-skartgripir-hansina-jensdottir

Posted in Heimsóknir.