Hún og Hún

Nú í sumar var Skólavarðan endurreist og því við hæfi að ganga götuna sem kennd er við hana, Skólavörðustíg, eftir að hafa dáðst að fallegu handverki steinsmiðanna. Vörðuna sem skólapiltar úr Hólavallarskóla reistu upphaflega 1793 endurreisti Þór Sigmundsson, steinsmiður og myndhöggvari.  Við nefnda götu er verslunin húnoghún og þar er margt fallegt og skemmtilegt að sjá.  Vaktina stendur Sif Ægisdóttir gullsmiður.  Hún og hún Guðrún Marinósdóttir textílhönnuður reka fyrirtækið saman en jafnframt því að vera gullsmíðaverslun og verkstæði eru þar haldnar myndlistarsýningar.  Um þessar mundir eru 3 erlendir listamenn með verk til sýnis og sölu.

húnoghún við Skólavörðustíg 17b.

Sif útskrifaðist úr Myndlista- og handíðaskólanum, skúlptúrdeild árið 1991 og úr gullsmíðadeild Lahti’s Institute of Design, Finnlandi, 1996. Hún hefur tekið þátt í samsýningum heima og erlendis. Guðrún útskrifaðist úr Myndlista- og handíðaskólanum, textíldeild, árið 1977 og hefur haldið nokkrar einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga heima og erlendis.

Sif að störfum.

Á heimasíðu Handverks og hönnunar kemur fram að húnoghún sé fyrst og fremst skartgripaverslun þar sem áhersla er lögð á sérstaka, handsmíðaða, listræna skartgripi. Hefðbundin efni svo sem gull, silfur og eðalsteinar eru í hávegum höfð en einnig óvenjulegri efni t.d. hrosshár, ull og bílrúða svo og íslenskir steinar.

Á Menningarnótt ár hvert heldur húnoghún teiknisamkeppni barna.  Sif segist svo frá:  Þegar sonur minn var 5 ára teiknaði hann skemmtilega mynd af karli og mér, gullsmiðnum leitandi , datt í hug að smíða hálsmen eftir teikningunni. Ég smíðaði fleiri skartgripi eftir teikningum barnanna og fólk fór að panta men, nælur eða annað eftir teikningum sinna barna og annarra.

Að sögn Sifjar eru viðskiptavinir jafnt Íslendingar og erlendir ferðamenn en sá hópur viðskiptavina stækkar ár frá ári.

Sif Ægisdóttir.

Á heimasíðunni www.hunoghun.is má fræðast betur um verslunina og hvað er á dofinni hverju sinni.

Eyrnalokkar úr pappír eftir Lauru glerlistamann.

Vegna ágangs viðskiptavina varð netnefnd frá að hverfa en óskar  að lokum Sif og Guðrúnu alls velfarnaðar.

hunoghun@hunoghun.is

Netnefnd/ AR

Posted in Heimsóknir.